Karellen

Samstarf foreldra og skóla

Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi og velferð barnanna sinna en leikskólanum ber að veita foreldrum stuðning í uppeldi barna, leikskólastarfið er því viðbót við það uppeldi sem barnið fær í foreldrahúsum. Mikilvægt er að náið samstarf og gagnkvæmt traust skapist milli heimilis og leikskóla. Við leggjum mikla áherslu á gott samstarf við foreldra. Foreldrar geta alltaf leitað til starfsfólks leikskólans með öll þau mál og spurningar sem upp kunna að koma varðandi barnið og starfsemi leikskólans. Foreldrar þekkja barnið sitt best en við kynnumst því í starfi og þekkjum þroska þess, færni og viðbrögð í barnahópi.

Foreldrasamtöl.

Foreldrasamtöl eru í boði fyrir alla foreldra einu sinni á ári, í febrúar/mars. Þegar einn til tveir mánuðir eru liðnir af skólagöngu barns er boðið upp á viðtöl/samtöl fyrir þá foreldra sem þess óska. Tilgangur viðtalanna er að skiptast á upplýsingum um barnið, þroska þess og líðan, hvernig aðlögun hefur gengið og efla samstarf á milli leikskóla og heimilis. Við hvetjum foreldra til að nýta sér þessi viðtöl.

Foreldrafundir.

Í september/október er haldinn fundur með öllum foreldrum þar sem fram fer kynning á starfssemi viðkomandi skólaárs og eða kynning á áherslum í skólastarfinu t.d. Uppeldi til ábyrgðar, Grænfánanvinnunni, leiknum, og þannig mætti lengi telja.

Foreldrum er einnig boðið í heimsókn í leikskólan nokkrum sinnum á ári þegar einhverjar uppákomur eru í leikskólanum, s.s. danssýning, þátttaka í tónlistartímum, opið hús og foreldrakaffi.

Skilaboð til foreldra

Karellen er upplýsingakerfi sem auðveldar kennurum vinnu sína og gerir foreldrum betur kleift að fylgjast með því sem gerist í leikskólanum. Þar birtast einnig myndir sem teknar eru af börnunuum í starfinu.

Upplýsingatöflur hanga í fataklefum deilda, þar geta foreldrar fylgst með ýmsum skilaboðum frá starfsfólki. Ferðir, skipulagsdagar og aðrar uppákomur eru auglýstar sérstaklega með tölvupósti, á upplýsingatöflum og á mánaðardagatali heimasíðunnar.

© 2016 - 2024 Karellen