news

Ævintýrahópur útskrifast

27. 05. 2020

Það er margt öðruvísi við skólastarfið í Krakkakoti þetta vorið en verið hefur. Útskriftaferðin okkar með Lionsmönnum féll niður vegna Covid -19 farandursins og þá voru góð ráð dýr.

Við í Krakkakoti ákváðum því að reyna að fremsta megni að gera eitthvað eftirminnilegt fyrir Ævintýrahópinn þ.e. hópinn sem er að útskrifast úr leikskólanum í sumar. Ákveðið var að bjóða börnunum að gista í leikskólanum miðvikudaginn fyrir uppstigningardag og hafa útskrift morguninn eftir á uppstigningardegi.

Börnin mættu í skólann á miðvikudeginum eins og venja er og komu klifjuð í leikskólann af sængurfötum og öðrum nausynlegum búnaði sem þarf þegar maður ætlar að gista einhverstaðar.

Þegar allir aðrir voru farnir úr leikskólanum þennan dag þá byrjaði fjörið hjá okkur.

Byrjað var á því að fara í ratleik sem miðaði að því að finna fjársjóð. Ratleikurinn bar okkur um nánasta umhverfi leikskólans og endaði í Gesthúsafjörunni. Á leiðinni þurfti að leysa allskonar þrautir þar sem vísbendingar var að finna eins og labba eftir jafnvægisslá og gera jógaæfingar.

Vísbendingarnar voru allar á góðum stöðum m.a. við hesthús þar sem við gátum skoðað hesta og klappað og hjá kindum þar sem gat að líta lítil nýfædd lömb. Vísbeningarnar enduðu í Gesthúsafjörunni og þá áttu börnin að velja einn strák og eina stelpu til að finna fjársjóðskistuna. Börnin þurftu að velja á lýðræðislegan hátt. Máttu ekki velja sjálfan sig en þurftu öll að velja einn. Þetta var mjög lítið mál fyrir þau og þau völdu sér fulltrúa drengja og stelpna án þess að nokkur yrði leiður út af því að hann eða hún væri ekki valinn til verksins.

Fjársjóðurinn fannst grafin undir steini og í honum voru sápukúlur og fjörusteinar með gati og band sem ætlunin var að búa til hálsmen úr. Börnin nutu sín í fjörunni góða stund ogmargir voru orðnir vel blautir þegar haldið var heim á leið.

Þegar heim var komið pöntuðum við pizzur. Meðan beðið var eftir pizzunni þá bjuggu börnin til hálsmenin úr fjörusteinunum. Pizzan ran ljúflega niður og eftirrétturinn líka sem var í formi frostpinna. Þá var komið að því að hátta og útbúa fletið sitt fyrir nóttina. Það gekk auðvitað eins og í sögu. Þegar búið var að gera klárt fyrir svefninn komu börnin á kvöldvöku framm í sal og horfðu á bíómyndina 101 Dalmatíuhundur. Það voru ansi margir orðnir framlágir þegar myndinni lauk og allir drifu sig að bursta tennur og þvo snjáldur og drífa sig í svefn. Vel gekk hjá flestum að sofna og allir komnir í svefn kl. 11:00Um morguninn borðuðum við saman morgunverð, heitar brauðbollur með osti og sultu og kakó. Þá var farið í það að ganga frá og pakka niður og klæða sig. Foreldrar barnanna og systkini voru svo mætt kl. 9:30 til að vera viðstödd útskrift Ævintýrahópsins. Börnin sungu fyrir gesti sína og fengu útskriftarskjal og rós. Að sjálfsögðu voru líka útskriftahattar sem börnin höfðu búið til sjálf í listasmiðju hjá Díönu. Útskriftahattarnir voru allir hinir glæsilegustu. Eftir formlega útskrift var gestum boðið upp á kaffiveitingar.

Foreldrarnir færðu starfsfólki leikskólans að gjöf þessa líka fínu kaffivél sem hefur ekki kólnað síðan hún kom í hús. Takk kæru foreldrar fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Við erum svo stolt af börnum ykkar sem stóðu sig með stakri prýði og sýndu mikla prúðmennsku þrátt fyrir að vera ákaflega spent. Starfsfólkið okkar sýndi það í verki hversu tilbúið það var til að gera þennan viðburð í lífi barnanna eftirminnilegan og góðan. Allir skemmtu sér konunglega og nutu þess að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni. Við munum sakna þessara yndislegu barna og óskum þeim hamingjuríkrar framtíðar og velgengni í lífinu.

© 2016 - 2020 Karellen